top of page

Klang Games metið á tæpan milljarð

July 25, 2015

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Klang Games er metið á tæpan milljarð króna eftir hlutafjárkaup breska fjárfestingarfélagsins London Venture Capital í fyrirtækinu. Fjárfestarnir keyptu hlut í félaginu fyrir 630 þúsund Bandaríkjadali, eða um 85 milljónir íslenskra króna.

Klang Games var stofnað árið 2013 af Ívari Emilssyni, Oddi Snæ Magnússyni og Guðmundi Hallgrímssyni listamanni, sem jafnan er kallaður Mundi Vondi. Ívar og Oddur eru fyrrverandi starfsmenn CCP og hafa talsverða reynslu af hönnun tölvuleikja. Stofnendurnir eiga fyrirtækið enn að mestu.

Ívar segir að við fjárfestingu London Venture Capital hækki virði fyrirtækisins enn frekar þar sem það sé afar virt innan tölvuleikjaheimsins. Þá muni sambönd breska fyrirtækisins og reynsla þess hjálpa frekari vexti Klang Games.

David Lau-Kee, meðeigandi hjá London Venture Capital, tekur sæti í stjórn fyrirtækisins. Lau-Kee var áður varaforseti tölvuleikjarisans Electronic Arts.

Klang Games er við það að gefa út sinn fyrsta tölvuleik, ReRunners, sem kemur út á snjallsíma. Til að byrja með verður leikurinn prufukeyrður á Filippseyjum, Nýja-Sjálandi og í Ástralíu. Í kjölfarið er stefnt að því að leikurinn komi út um allan heim í október. Leikurinn kemur út á ensku, frönsku, ítölsku, þýsku og spænsku en nú stendur yfir vinna við að þýða leikinn.

Ívar lýsir ReRunners sem risastórum heimi þar sem hægt er að ferðast um og keppa við aðra spilara.

Framtíðarsýn Klang Games er skýr að mati Ívars. „Okkar markmið er að slá í gegn. Við erum að búa til alveg frábæran leik og við ætlum að halda áfram að reyna að búa til frábæra fjölspilunarleiki,“ segir hann.

 

Klang Games er staðsett í Berlín. Ívar segir einkum tvær ástæður fyrir því að fyrirtækið hafi valið að starfa þar. „Það er rosalega erfitt að fá erlenda fjárfesta til Íslands því peningurinn er fastur. Það er samt ekki aðalástæðan. Aðalástæðan er betri aðgangur að starfsfólki. Eins og ástandið er í dag er auðveldara að fá fólk til að flytja til Berlínar en Íslands,“ segir Ívar.

Source: http://www.visir.is/klang-games-maetid-a-taepan-milljard/article/2015707259971

PlaceHolder.png
'ReRunners', an Upcoming Platformer, is an Asynchronous Competitive Multiplayer Game
PlaceHolder.png
Klang Games Receives London Venture Partners Investment
bottom of page